Um Huldu

Ég leitaði drauma í lífsins skóg,

Leiðin var ógreið, þreytan nóg.

En hugsjón mér vakti í huga.

                                       – Elín Vigfúsdóttir

HULDA – náttúruhugvísindasetur var sett á fót sumarið 2021 sem samstarfsvettvangur vegna undirbúnings fyrir stofnun nýs rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit. Á bak við HULDU standa Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands sem rekur háskólasetur víða um land og Svartárkot menning – náttúra, grasrótarsetur í heimabyggð sem haldið hefur alþjóðleg námskeið og stundað rannsóknir um árabil. Þingeyjarsveit er einnig samstarfsaðili HULDU.

Nafnið HULDA vísar annarsvegar í skáldkonuna Unni Benediktsdóttur Bjarklind (fædda 1881 í Laxárdal Suður-Þing) sem gekk undir skáldaheitinu Hulda og var eitt framsæknasta  skáld fyrstu áratuga 20. aldar á Íslandi. Hinsvegar vísar nafngiftin til þess sem hulið er – á huldu – en bíður þess að vera svipt  hulunni. Það vísar þannig til nýrrar þekkingar og óvæntra tenginga sem breyta viðtekinni sýn  á viðfangsefnið. Orðið hulda merkir einnig álfkona eða  náttúruvættur; vera sem er óaðskiljanlegur hluti af náttúrunni. Hulduveran er nálæg en þó  oft hulin sýn manna og vísindin afneita gjarnan tilvist hennar. Heimur hennar er framandi en  ekki aðskilinn þeim heimi sem við teljum okkur þekkja heldur einmitt órjúfanlegur hluti af honum; heimur sem við getum aðeins kannað með því að víkka sjóndeildarhringinn og láta  reyna á nýjar nálganir.

Starfsstöð HULDU er í Gíg í Mývatnssveit en þar eru m.a. starfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar, Þekkingarnets Þingeyinga og Rannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ).

Meginmarkmið HULDU er að efla rannsóknir á sviði náttúruhugvísinda og miðlun þekkingar á margvíslegum hliðum náttúrunnar, þar með talið manninum sjálfum. Auk þess er setrið til þess fallið að auka aðgengi heimafólks að menntun, ekki síst framhaldsnámi og námskeiðum á háskólastigi. HULDA leggur mikla áherslu á að tengja fræðasamfélagið við heimamenn og miðla þeim fjölmörgu rannsóknum, sem verið er að vinna að og unnar hafa verið í héraði, til þeirra sem hér lifa og starfa. Sá hluti verkefnisins er í daglegu tali nefndur Brú.

Einn helsti kostur HULDU er að hún sameinar krafta SMN og Stofnunar rannsóknasetra  Háskóla Íslands sem bæði hafa mikla reynslu af rekstri og starfrækslu rannsókna- og  þekkingarmiðlunarsetra. Á þessum nýja samstarfsvettvangi mætast þannig annars vegar  grasrótarstarf með öfluga tengingu bæði við nærumhverfið og erlend rannsóknanet og hins vegar akademísk stofnun byggð á sterkum grunni sem hefur það að markmiði að efla tengsl  stærsta háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf. Með HULDU skapast því ótal ný tækifæri til  rannsókna, þekkingarmiðlunar og samstarfs við innlenda og erlenda aðila.

Starfsemi HULDU fellur afar vel að ákvæði stjórnarsáttmálans og stefnu Vísinda- og tækniráðs um eflingu rannsóknasetra á landsbygginni og atvinnulífsins í kjölfar COVID-19 með rannsóknum og nýsköpun sem byggir á hugviti fremur en takmörkuðum náttúruauðlindum.