Hvað eru náttúruhugvísindi?

Yndi er að sjá þau afarháu fjöllin

svalan kringum sveitar lög

sjónarhringinn prýða mjög

                                       – Baldvin Stefánsson

Í starfi HULDU eru náttúruhugvísindi í fyrirrúmi. Með því er átt við hugvísindalegar rannsóknir á náttúrunni, svo sem á sviði heimspeki, bókmennta, sögu og menningarfræði, þar sem þverfagleg samvinna við náttúru- og félagsvísindi er höfð að leiðarljósi. Litið er svo á að maður og náttúra séu ekki aðskilin fyrirbæri heldur eitt og hið sama; maðurinn er í náttúrunni og þar með hluti hennar. Sem slík ber mannskepnan ábyrgð á þeim áhrifum sem hún hefur haft á náttúruna, þar með talið sig sjálfa. Lögð er áhersla á að styrkja stöðu hugvísinda á sviði náttúrurannsókna og aðgerða varðandi umhverfismál en gengið er út frá því að án þátttöku hugvísinda verði erfitt eða jafnvel ógerlegt að finna lausnir á þeim áskorunum sem við blasa.

Náttúruhugvísindi og umhverfishugvísindi (e. environmental humanities) tilheyra víðfeðmu  sviði þverfaglegra rannsókna á náttúru og umhverfi sem hófust á síðari hluta síðustu aldar  en hafa eflst til muna á 21. öld. Á þessu sviði er lögð áhersla á að víkka sjóndeildarhring  umhverfisrannsókna út fyrir náttúru- og raunvísindi þannig að þær nái einnig til hug- og  félagsvísinda. Þetta er talið nauðsynlegt ekki síst sökum þess að þær umfangsmiklu  breytingar á náttúru okkar og umhverfi sem blasa við á 21. öld eru ekki eingöngu  vistfræðilegs eðlis heldur er hér um að ræða menningarlega krísu, líkt og Steven Hartman,  einn helsti sérfræðingurinn á sviði umhverfishugvísinda, bendir á. Hann segir enn fremur að  til að leysa þessa krísu þurfum við þekkingu úr fleiri áttum en náttúruvísindum – ekki síst  hugvísindum.

Með því að tala um náttúruhugvísindi, frekar en umhverfishugvísindi, vilja aðstandendur  HULDU leggja áherslu á og undirstrika þann kjarna í hugmyndafræði setursins að  tvíhyggjuhugsun um mann andspænis náttúru sé andæft. Litið er svo á að maðurinn sé í  náttúrunni og þar með hluti af henni. Hann stendur ekki fyrir utan náttúruna og því getur  hún ekki verið hlutgert viðfang athafna, maðurinn getur ekki ráðskast með hana að vild.  Náttúruhugvísindi beinast því annars vegar að stöðu mannsins í náttúru og umhverfi og  þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það felur í sér (hugmynda)sögulega vídd, því þörf er á víðtækri  þekkingu á skilningi mannsins á stöðu sinni í eða gagnvart náttúrunni. Hins vegar sækja  náttúruhugvísindi þekkingu, aðferðir og innblástur með þver- og fjölfaglegum hætti til  fjölmargra greina hefðbundinna náttúruvísinda. Þannig má öðlast skilning á stöðu mannsins í  og gagnvart náttúrunni (og sjálfum sér) sem lifandi og skapandi framvindu. Í grófum  dráttum: ábyrgð mannsins gagnvart sjálfum sér í náttúrunni.

Þótt hugvísindarannsóknir hafi beinst að náttúrunni í marga áratugi er fyrst nú á 21. öld að  verða til þverfaglegt alþjóðlegt fræðasamfélag á sviði umhverfis- og náttúruhugvísinda.  Samtalið sem nú á sér stað í auknum mæli, bæði milli fræðafólks úr ólíkum greinum  hugvísinda og við fólk úr náttúru- og félagsvísindum, hefur að leiðarljósi að slík þverfagleg  samvinna leiði af sér þekkingu sem erfitt eða ómögulegt sé að skapa á annan hátt. HULDA  stefnir að því að vera leiðandi aðili í þeirri þróun á Íslandi. 

(Oppermann, S., & Iovino, S. (2017). Introduction: The Environmental Humanities and the Challenges of the Anthropocene. Environmental Humanities: Voices from the Anthropocene, December, 1–22 ).