Brúarkynningar

Hita kaffi, baka brauð,

brenna, strokka, flóa,

mjaltaði,  fisk til miðdags sauð,

mátti ei tíma sóa.

                                       – Kristín Þorgrímsdóttir

Brúarkynningar eru samverustundir á vegum Huldu þar sem sagt er frá margvíslegum verkefnum og akademísku starfi sem tengist Þingeyjarsveit. Fræðafólk, íbúar og nemar kynna rannsóknir sínar en Brúarkynningar eru einnig hugsaðar sem vettvangur samræðna og hugmyndaflæðis.

Fylgist með hér á vefsíðunni, í Hlaupastelpunni og á samfélagsmiðlum þar sem tíma- og staðsetningar Brúarkynninga verða auglýstar.

Brúarkvöld 2023, framsögufólk og efni

Man einhver eftir Helga í Holti?

– Viðar Hreinsson –

Heiðarbúinn Helgi Jónsson (1890-1969) sem bjó í Stafnsholti á Fljótsheiði var áhugaverður persónuleiki.  Hann var fræðaþulur, ættfróður, skáldmæltur, nokkuð sérsinna og uppreisnargjarn í hugsun.  Hann safnaði saman miklum fróðleik en það eina sem var gefið var út eftir hann var  bók um Látra-Björgu. Eftir Helga liggur all mikið efni af rituðum sagnaþáttum, kveðskap og ættfræði sem geymt er á Héraðsskjalasafninu á Húsavík, Handritadeild Landsbókasafnsins og Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Heimarafstöðvar í Suður Þingeyjarsýslu 1928-2020

– Jónas Sigurðarson –

Á fyrri hluta síðustu aldar hófst uppsetning margra lítilla vatnsaflsvirkjana á landinu og ekki hvað síst í Suður Þingeyjarsýslu.  Heimildir fundust um rúmlega 70 bæi þar sem byggðar höfðu verið heimarafstöðvar á þessu svæði.  Þessar stöðvar eru listaðar upp í riti sem kom út eftir Jónas.

Þingeyingar og tenging við náttúruna

– Myrra Leifsdóttir,  Þorsteinn Þór Jónsson –
– Sylvía Jónsdóttir, Kjartan Magnússon –

Nemar á vegum Huldu og SMN unnu viðtalsverkefni sumar og haust 2023 sem bar nafnið Náttúra, hálendi, tilfinningar.  Þar var spurt út í viðhorf og tilfinningatengsl fólks til náttúrunnar og hálendisins ásamt því að skoða viðhorf til rannsókna og rannsóknastarfs á svæðinu.  Greint var frá frumniðurstöðum rannsóknarinnar. 

Inndalir Fnjóskadals

– Hermann Róbert Herbertsson –

Timburvalladalur, Bleiksmýrardalur og Hjaltadalur eru þrír dalir sem liggja inn af Fnjóskadal.  Engin byggð er í þeim nú en eyðibýli og til eru sagnir um búsetu í þeim öllum.  Sagt var frá heimildaöflun um þessa gömlu byggð ásamt sögum sem tengjast örnefnum og merkingu eyðibýla.

Samgönguminjasafnið og Sverrir

– Dagný Hulda Valbergsdóttir  –

Árið 2016 vann  Dagný Hulda heimildamynd um samgönguminjasafnið á Ystafelli og Sverri Ingólfsson.  Myndin var meistaraverkefni við hagnýta menningarmiðlun í HÍ.  Sagt var frá náminu, ferli myndarinnar og aðdraganda hennar.  Einnig segir Dagný Hulda frá kynnum sínum af Sverri og safninu.  

Álfar og huldufólk

– Bryndís Fjóla Pétursdóttir  –

Sagt er frá álfum og huldufólki.  Fjallað um tengingu við þennan merka menningararf og þjóðtrú, tengsl fólks við náttúruna sem og umhverfisvitund.  Verkefnið Huldustígur var kynnt og önnur verkefni sem eru á döfinni hjá Bryndísi.

Óbyggðirnar kalla

– Orri Vésteinsson –

Minjar um byggð finnast á hálendinu suður af Bárðardal, flestar í Krókdal langt suður með Skjálfandafljóti. Sagt er frá fornleifarannsóknum og athugunum sem þar hafa verið gerðar en rannsóknir sýna að þar hafi verið búseta á 10. öld. 

Ina kvenskörungur

– Dagmar Trodler  –

Árið 1908 kom ung þýsk kona, Ina Von Grumbkov,  til landsins til að leita að unnusta sínum, sem týndist í vísindaleiðangri í  Öskju.  Hennar er hvergi minnst, nema í bók sem hún skrifaði, Ísafold.  Sagt var frá leitar- og ferðasögu Inu með nútíma augum og stórmerkileg afrek hennar sett í sögulegt samhengi.

Flökkufólk

– Yngvi Leifsson –

Fjalla um aðstæður flökku- og lausafólks í íslensku samfélagi um aldamótin 1800, um ástæður ferða þeirra, baráttu við náttúruöflin og um lög sem sett voru þeim til höfuðs en um tíma voru hörð lög gegn flakki og lausamennsku.  Sagt  var frá ævi flökkukonunnar Ingiríðar Eiríksdóttur frá Haga í Aðaldal (1777-1857) en hún var á flakki allt sitt líf.