Rannsóknasetur Háskóla Íslands

Ég átti bláa berjalaut

í brekkunni minni heima.

Þar æstur stormur aldrei þraut.

Þar út sig breiddi sumarskaut.

Ég mun aldrei gleyma

þeirri bláu berjalaut

í brekkunni minni heima. 

 

                                       – Friðfinna Sörensdóttir

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands stendur að stofnun rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit en það er ellefta setrið sem starfrækt er landsbyggðinni. Markmið SRHÍ er að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og skapa vettvang fyrir samstarfsverkefni háskólans við nærumhverfi og nærsamfélag setranna. Viðfangsefni rannsóknasetranna eru af ýmsum toga en mörg leggja áherslu á umhverfismál, svo sem  vistfræði, líffræði, jöklarannsóknir og samspil samfélags og náttúru á hverju svæði fyrir sig.  Nýja setrið í Þingeyjarsveit er mikilvæg viðbót við rannsóknasetur HÍ en það mun leggja megináherslu á náttúruhugvísindi og þverfaglegar rannsóknir á sviði umhverfismála auk þekkingarmiðlunar og samstarfs við nærsamfélagið.
Á tveimur áratugum, frá árinu 2001 til 2021, voru stofnuð tíu rannsóknasetur á landinu á vegum Háskóla Íslands. Fyrsta setrið var rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði sem hóf starfsemi sína síðla árs 2001.  Rannsóknasetrin tíu eru staðsett á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra, Húsavík, Austurlandi og Breiðdalsvík.  Einnig er starfsemi á vegum stofnunarinnar í Vestmannaeyjum. Markmið rannsóknasetra Háskóla Íslands er m.a. að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land. Meginþungi starfsemi rannsóknasetranna eru rannsóknir og eru viðfangs- og rannsóknarefni þeirra víðfeðmt og fjölbreytt en þar má meðal annar nefna: Lífríki hafsins, umhverfi og landnýtingu, ferðamál, bókmenntir, hvalir, fiskar og fuglar ásamt sagnfræði, fornleifafræði, þjóðfræði og jarðfræði. Einnig koma starfsmenn setranna að kennslu, fyrst og fremst með leiðbeiningu framhaldsnema í meistara-og doktorsnámi. Sum setrin halda einnig úti sérhæfðum vettvangsnámskeiðum og starfsmenn taka þátt í kennslu námskeiða á vegum Háskóla Íslands. Áhersla er lögð á að setrin séu virk á sínu starfssvæði, meðal annars með því að vera í góðri tengingu við samfélag og atvinnulíf, tengjast inn í önnur skólastig og miðla þekkingu og rannsóknum. Forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er Sæunn Stefánsdóttir. Starfsmenn setranna árið 2022 voru 61 talsins í rúmlega 34 stöðugildum.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit

Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit var stofnað 2023 og tók til starfa í lok árs. Setrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði umhverfishugvísinda en einnig er lögð áherslu á þekkingarmiðlun og samstarf við nærsamfélagið. Setrið starfar í samvinnu við Svartárkot menningu – náttúru og saman standa þau að náttúruhugvísindasetrinu Huldu.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík

Rannsóknasetrið á Húsavík var stofnað 2007 og formlega opnað árið 2008. Áhersla setursins er
á rannsóknir á hafinu og lífríki þess og þar helst á hvölum en einnig á svifi, sjófuglum og
loftslagsrannsóknum. Mikil samvinna og samstarf eru við háskóla og stofnanir hérlendis og
erlendis bæði hvað varðar rannsóknir og kennslu.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi var stofnað 2008. Ekki var regluleg starfsemi hjá
setrinu milli áranna 2010-2018. En frá árinu 2015 til ársins 2018 vann setrið að
rannsóknaverkefninu Maður og náttúra. Þar voru skoðuð áhrif og tilurð hreindýra í íslenskri náttúru og menningu. Meginmarkmið setursins eru að rannsaka og efla þekkingu á sögu, samfélagi og náttúru Austurlands sem og að efla samstarf HÍ við fræðafélög, vísindamenn og stofnanir svæðisins.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra var stofnað árið 2009 og tók til starfa árið 2010. Áherslur setursins eru ýmiskonar sagnfræðirannsóknir og eru starfsmenn setursins þátttakendur í innlendum og erlendum rannsóknaverkefnum. Setrið hefur verið í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga frá 2019 þar sem unnið er að gerð gagnagrunns sáttanefndabóka.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík var stofnað árið 2020. Aðaláhersla setursins eru verkefni tengd málvísindum og jarðfræði. Helstu verkefni snúa að rannsóknum og miðlun rannsóknaniðurstaða sem og kennslu og leiðbeiningu framhaldsnema í jarðvísindum. Starfsemi setursins byggir á grunni Breiðdalsseturs sem er fræða- og menningarsetur sem starfað hefur um árabil. Rannsóknasetrið og Náttúrufræðistofnun vinna saman að eflingu rannsókna á sviði jarðvísinda á Austurlandi.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði var stofnað síðla árs 2001. Megin markmið setursins eru að auka við þekkingu um náttúruna og að efla samfélag og menningu á landsbyggðinni. Lögð er áhersla á bókmenntir, menningu og rannsóknir sem tengjast ferðaþjónustu. Setrið sér um rannsóknastöðina Auga Solanders sem staðsett er á Breiðamerkursandi og er þverfræðilegt verkefni í samvinnu fjölda vísindafólks.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi er staðsett á Stykkishólmi og hófst starfsemi þess árið 2006. Áhersla setursins er að efla rannsóknatengda starfsemi á Vesturlandi í samvinnu við erlendar og innlendar vísindastofnanir, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklinga. Lögð er áhersla á rannsóknir á náttúru Breiðafjarðar, norðanverðs Faxaflóa og Snæfellsness.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum var stofnað árið 2016. Helstu verkefni setursins eru rannsóknir í þjóðfræði og er sérstök áhersla lögð á hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar og miðlun á þjóðfræði. Viðfangsefni setursins spanna allt frá menningarlandslagi til þjóðtrúar. Margvíslegt samstarf er við lista- og fræðafólk og við menningarstofnanir.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi

Rannsóknasetrið á Suðurlandi tók til starfa 2004 og sinnir aðallega rannsóknum á náttúrunni. Megin verkefnin hingað til hafa aðallega fallið undir þrjá flokka: Áhrif landnotkunar á lífríki, tengsl milli náttúrulegs breytileika í tíma og rúmi og dýrastofna og stofnrannsóknir á farfuglum.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum var formlega stofnað 2004. Helstu verkefni setursins eru m.a. að stuðla að margvíslegri háskólakennslu á svæðinu, stuðla að norrænum og alþjóðlegum námskeiðum og efla tengsl HÍ við atvinnu og þjóðlíf á Suðurnesjum. Einnig er miðlun og þjálfun hluti af starfi setursins ásamt þjónustu og ráðgjöf, kennslu alþjóðlegra námskeiða og alþjóðleg samvinna ásamt mörgu öðru.

Vestmannaeyjar

Stofnun rannsóknarsetur Háskóla Íslands hóf starfsemi í Vestmannaeyjum 2020. Starfsemin í Vestmannaeyjum snýr m.a. að kennslu og rannsóknum tengdum sjávarspendýrum. Starfið felur í sér samstarf við fólk víða um heim og vettvangsrannsóknir.