Verkefnið Brú

Það var um kvöld er sólin seig

í svölum Unnarhyl.

Ég úti gekk á grænum teig

og gáði veðurs til.

 

                                       – Margrét Halldórsdóttir

Verkefnið Brú gengur út á að efla tengingu milli íbúa og þeirra aðila sem sinna akademískum rannsóknum og áhuga á rannsóknum í Þingeyjarsveit. Með öðrum orðum að brúa bilið milli þessara aðila en stórmerkileg og fjölbreytt þekkingaröflun á stað í sveitarfélaginu meðal fræðafólks og heimamanna. Markmiðið er að tengja, auka samtal og samvinnu á milli þessara tveggja ólíku heima fræðafólks og heimamanna. Þannig getur orðið til þvermenningarlegt samstarf, hvort sem um er að ræða söfnun og skráningu heimilda, ný viðfangsefni í akademískum rannsóknum, nýsköpun eða mennta- og menningartengda ferðaþjónustu. Einnig er Brú vettvangur fyrir báða hópa til að kynna störf sín og gera þau sýnileg, jafnvel aðgengileg fyrir íbúa svæðisins og aðra þá sem  áhuga hafa.

Af hverju að byggja Brú?

 

Oft er lítil tenging á milli heimafólks of fræðimanna. Þekking beggja hópa er því að mestu bundin innan hvors hóps fyrir sig og lítið flæði upplýsinga gengur á milli. Þess vegna er nauðsynlegt að byggja brú á milli þessara aðila. Verkefnið Brú gengur út á að tengja þá fjölmörgu fræðimenn sem stunda rannsóknir í héraðinu og íbúa (grúskara) sem einnig sinna stórmerkilegri og fjölbreyttri upplýsingaöflun eða búa yfir annarri þekkingu.

Brú verður vettvangur til að veita upplýsingar um þær fjölþættu rannsóknir sem tengjast
Þingeyjarsveit. Framgangur rannsókna og niðurstöður þeirra eru ekki endilega aðgengilegar fyrir
heimamenn eða er lítið miðlað til almennings. Með auknu aðgengi og upplýsingaflæði gæti afrakstur þeirra og gögn nýst betur til fróðleiks og atvinnusköpunar. Sama má segja um kunnáttu, þekkingu og
gagnaöflun heimafólks sem oftast er lítt aðgengileg öðrum.

Með Brú má stuðla að auknu  hugvitsdrifnu atvinnulífi hér í nýsameinuðu sveitarfélagi Þingeyjarsveitar  t.d. í formi mennta- og menningartengdrar ferðaþjónustu eða skapandi ferðaþjónustu sem byggir á þekkingu, sögu, menningu og náttúrufari svæðisins eða með framleiðslu á vörum sem tengjast staðbundinni þekkingu á auðlindum s.s. jurtum og jurtalitun, matarhandverki eða annarri verklegri þekkingu… af nógu er að taka.

Með hugtakinu skapandi ferðamennska er átt við að ferðamaðurinn taki virkan þátt og læri eitthvað nýtt sem iðkað er á svæðinu sem hann heimsækir. Það getur verið tengt menningu og menningararfi, matarmenningu eða iðn eins og t.d. handverki.

Brúarkynningar

 

Brúarkynningar eru samverustundir á vegum Huldu þar sem sagt er frá margvíslegum verkefnum og
akademísku starfi sem tengist Þingeyjarsveit. Fræðafólk, íbúar og nemar kynna rannsóknir sínar en
Brúarkynningar eru einnig hugsaðar sem vettvangur samræðna og hugmyndaflæðis.

Fyrsta spor Huldu í að kynna fræðastarf og verkefni var að standa fyrir Brúarkvöldum á árinu 2023. Á
Brúarkvöldum voru kynnt ýmis verkefni og rannsóknir víða í Þingeyjarsveit.  Brúarkvöldin voru styrkt af
SSNE.

Fylgist með hér á vefsíðunni, í Hlaupastelpunni og á samfélagsmiðlum þar sem tíma- og staðsetningar
Brúarkynninga verða auglýstar.