Fróðleiksmolar
Geymist minning gengins dags
gleði og vinakynni
eins og fagur ómur lags
innst í vitundinni.
– Herdís Ólafsdóttir
Helgi í Holti
Helgi var einn af þessum sjálfmenntuðu fræðimönnum fyrri tíma sem bjuggu innan Þingeyjarsveitar. Hann bjó bæði í Stafnsholti í Reykjadal en einnig í Dalsmynni í Fnjóskárdal
Helgi í Holti skrifaði eftirfarandi hugrenningar um mold og þýðingu hennar fyrir Ísland og íbúa landsins.
,,Ekki veit sá, er þetta ritar, hvort á Íslandi hefir verið gerð áætlun um moldarmagn landsins í rúmmálstölum. Þætti mér líklegt að ekki kostaði of fjár að gera rannsóknir á moldarmagni landsins svo þjóðin fengi hugmynd um, hvað hún á í fórum sínum af lífgildinu í mold sinni. Íslenska moldin hefir ekki einasta fætt það fólk og klætt, sem hefir ræktað búpening og matjurtagarða, hún hefir einnig veitt því húsaskjól í meir en þúsund ár. Hún hefir enn fremur gert sjómanninum íslenska, að miklu leyti, sama gagn. Hún var löngum húsaskjól hans og fóðraði að allmiklu leyti fiska þá, er hann veiddi. Loks hefir íslenska moldin fætt þúsundir og aftur þúsundir erlendra manna á fiskum þeim er lifðu á landgrunni Íslands, þar sem frjómagn íslenskrar moldar vann sitt dulda starf. Íslendingar hafa horft í þúsund ár á flekkjagras á veggjum og þökum bæja sinna úr torfi og slegið flekkjagras árlega á bökkum lækja þeirra er ræst hafa fram mýrarnar í sjálfboðavinnu.‘‘
Einnig fjallar Helgi í Holti um mikilvægi sjávarins
,Fólkið á Íslandi þekkir ekki sína eigin sál. Það þekkir ekki þau lögmál sem binda manninn við föðurtúnið, við átthagamoldina. Það finnur ógæfuna í huga sér og leitar sér lækninga við henni á ólíklegustu stöðum. Það leitar sér staðfestu við ósa þeirra fljóta, sem bera fósturmold þess í sjóinn. Það heyrir ekki þótt fósturmoldin kalli til þess úr öldum fljótanna: “Hendur ykkar áttu að binda mig þar sem móðir ykkar og faðir, amma ykkar og afi bjuggu ykkur hreiður. En þið gleymduð lífsspeki fuglanna sem vitja hreiðra sinna. Nú rækta ég föðurtún þorskanna undir sjónum. Sjórinn er ykkar lífgjafi, sjórinn er ykkar hús, sjórinn er ykkar fósturjörð, sjórinn er ykkar vagga og sjórinn er ykkar gröf.‘‘